Viðskipti erlent

Nauðungaruppboðum fjölgar áfram í Danmörku

Danir glíma við svipað vandamál og Íslendingar hvað varðar nauðungaruppboð á íbúðum almenninga. Þessum uppboðum fjölgar áfram í Danmörku.

Börsen.dk fjallar um málið og vitnar í nýjar tölur frá dönsku hagstofunni. Þar kemur fram að í september urðu 451 nauðungaruppboð í landinu en í sama mánuði í fyrra voru þau 395 talsins. Þetta er aukning upp á 14%.

Lone Kjærgaard greinandi hjá Arbejdernes Landsbank segir að fjöldinn svari til þess að 14 íbúðir hafi farið á nauðungaruppboð á hverjum degi í september. Met var slegið hvað fjöldann varðar í mars s.l. þegar 16 íbúðir voru boðnar upp daglega.

Kjærgaard segir að tölurnar sýni að kreppan nú kemur ekki eins illa við almenning í Danmörku og síðasta kreppa í upphafi tíunda áratugarins á síðustu öld. Þá fór fjöldi nauðungaruppboða upp í 56 á dag.

Steen Bocian aðalhagfræðingur Danske Bank segir að sennilega hafi fjöldi nauðungaruppboða í Danmörku nú náð hámarki og að betri tímar séu framundan hvað þetta varðar.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×