Enski boltinn

Redknapp: Joe Cole búinn að semja við lið og það er ekki Tottenham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joe Cole í landsleik á dögunum.
Joe Cole í landsleik á dögunum. Mynd/AP
Joe Cole fékk góðar fréttir í gær þegar hann komst í HM-hóp Englendinga í Suður-Afríku en þessi 28 ára sóknarmiðjumaður er að renna út á samningi hjá Chelsea í sumar og það bendir allt til þess að hann fari frá liðinu. Cole hefur verið orðaður við Tottenham en Harry Redknapp, stjóri Tottenham, segir leikmanninn ekki ætla að koma til sín.

„Það lítur út fyrir að einhver eigi eftir að fá flottan leikmann frítt ef hann verður ekki áfram hjá Chelsea," sagði Harry Redknapp við Guardian.

„Ég veit samt ekki hver það verður en ég held að það verði ekki Tottenham. Ég hef vissa tilfinningu en gæti þó haft rangt fyrir mér. Ég held að Joe Cole sé búinn að semja við lið og það er ekki Tottenham," sagði Redknapp.

„Ég er alls ekki að segja að við hefðum ekki áhuga ef að hann væri að fara frá Chelsea og stæði okkur til boða. Ég er mikill aðdáandi Joe en skilaboðin til okkar er að hann sé þegar búinn að ákveða sig," sagði Redknapp.

Joe Cole var mikið meiddur á síðasta tímabili og fékk síðan lítið að spila hjá Carlo Ancelotti eftir að hann náði sér af meiðslunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×