Innlent

Björgólfur Thor gerir athugasemd við fréttaflutning

Björgólfur Thor Björgólfsson, fjárfestir.
Björgólfur Thor Björgólfsson, fjárfestir.
Björgólfur Thor Björgólfsson, fjárfestir, gerir athugasemdir við frétt Stöðvar 2 og Vísis frá því í gær um eignarhald hans á Landsbankanum og félagið Givenshire Equities sem skráð er á Kýpur. Fréttastofan stendur við fréttina. Hins vegar skal tekið fram að í útgáfu fréttarinnar sem birtist á Vísi urðu þau mistök að orðið „tengdra aðila" vantaði þegar vísað var til lánveitinga til Björgólfs Thors upp úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Þetta var lagað eftir ábendingu frá Ragnhildi Sverrisdóttur, talsmanni Björgólfs Thors, og er beðist velvirðingar á því að þessi orð hafi dottið út. Í upphaflegri útgáfu á Vísi var talað um lánveitingar til Björgólfs Thors, en um var að ræða lánveitingar til Björgólfs Thors og tengdra aðila.

Í frétt Stöðvar 2 var hvergi fullyrt að FME hafi ekki verið kunnugt um eignarhlut starfsmanna Novators í félaginu Givenshire Equities. Í fréttaskýringu sem birtist á Vísi var hins vegar dregin sú ályktun að FME hafi ekki verið kunnugt um eignarhlutinn þar sem starfsmönnum Landsbankans sjálfs hafi ekki verið kunnugt um hann. Fréttastofa hefur undir höndum gögn frá starfsmanni Landsbankans sem sýnir að svokallaður „customer account" í Lúxemborg hafi haldið utan um 5 prósenta hlut í félaginu á móti 95 prósenta hlut félagsins Valhamar Group Ltd, sem var í eigu Björgólfs Thors. Starfsmenn Landsbankans vissu semsagt ekki hver átti hlutinn því eignarhaldið var skráð þannig hjá bankanum sjálfum.

Sá hluti fréttaskýringarinnar sem hafði að geyma ályktun fréttamanns var lagfærður eftir ábendingu Ragnhildar Sverrisdóttur. Björgólfur Thor Björgólfsson vill koma því á framfæri að FME hafi verið látið vita af eignarhaldinu á 5 prósenta hlutnum í Givenshire Equities á Kýpur, sem var í eigu starfsmanna Novators, í ársbyrjun 2007. Fréttastofa hefur óskað eftir upplýsingum um hvort FME hafi verið kunnugt um hvernig eignarhaldinu var háttað en engin svör fengið þaðan. Eins og fréttastofa greindi frá í gær vill Björgólfur Thor Björgólfsson ekki gefa það upp hvaða starfsmenn Novators það voru sem áttu hlutinn.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×