Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins kom bandaríski auðkýfingurinn Paul Allen ekki hingað til lands í glæsiskipinu sínu Octopus. Allen flaug hingað til lands til móts við 60 manna áhöfn skipsins ásamt kærustu sinni en hún hélt upp á 30 ára afmælið sitt hér á landi.
Sömu heimildir herma að Allen hafi virkjað fólk til að búa skipið gjöfum handa kærustunni, svo sem íslenskan varningi og ávaxtakörfum. Á óskalistanum var einnig forláta Louis Vuitton taska, en lúxusmerkið er ekki fáanlegt á landinu og þurftu menn því að leita annarra leiða til að verða að ósk Allens.
Paul Allen og hans fylgdarlið verður fyrsti hópurinn sem kafar að flaki bandaríska herskipsins Alexander Hamilton í Faxaflóa. Skipinu var sökkt árið 1942.
Kafarinn og ljósmyndarinn Páll Sveinsson segir engan hafa kafað niður að flakinu. „Þegar ég ásamt fleirum vorum að gera okkur klára í leiðangur fengum við boð frá Landhelgisgæslunni um að það væri bannað," segir hann. Landhelgisgæslan fann flakið af Alexander Hamilton í fyrra og bar kennsl á það. Paul Allen og félagar hafa fengið leyfi frá utanríkisráðuneytinu til að kafa niður að flakinu.
Ekki er vitað hversu lengi Allen og kærastan ætla að dvelja á landinu eða hvort þau sigla á glæsisnekkjunni eitthvert annað. - áp/afb