Fótbolti

Wenger brjálaður út í fimmta dómarann

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Wenger var ekki hress í kvöld.
Wenger var ekki hress í kvöld.

Það sauð á Arsene Wenger, stjóra Arsenal, eftir tapið gegn Braga í Portúgal í kvöld. Wenger hefur áður kennt dómurum um töp en hann bauð upp á nýjan vinkil í kvöld er hann setti tapið á fimmta dómarann.

"Fimmtu dómararnir eru gagnslausir. Eboue var sparkaður út af vellinum og svo var augljósu víti sleppt. Þetta er aðeins meira en óheppni. Hvað eru annars þessir fimmtu dómarar að gera? Hvernig eru þeir að hjálpa til," spurði Wenger furðulostinn.

"Þetta var annars ekki nógu gott hjá okkur. Við sköpuðum ekki mikið og þeim tókst að hægja á leiknum. Okkur var síðan refsað er við færðum okkur framar á völlinn."

Þetta var vont kvöld fyrir Arsenal á margan hátt sem nú þarf að vinna lokaleik sinn í riðlinum til þess að komast örugglega áfram.

Liðið missti þess utan fyrirliðann sinn, Cesc Fabregas, af velli meiddan.

"Cesc tognaði í leiknum en það er erfitt að segja hvað hann verður lengi frá. Hann verður í það minnsta ekki með um helgina."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×