Lífið

Steindi leggur drög að nýrri seríu

snýr aftur
Pálmi Guðmundsson, sjónvarpsstjóri Stöðvar 2, er ánægður með viðtökurnar.
snýr aftur Pálmi Guðmundsson, sjónvarpsstjóri Stöðvar 2, er ánægður með viðtökurnar.

„Það verður önnur sería. Það á eftir að ganga frá og svona, en það vilja allir aðra seríu og það verður önnur sería," segir grínistinn Steindi Jr.

Síðasti þátturinn af Steind-anum okkar var sýndur á Stöð 2 í gærkvöldi. Þættirnir hafa slegið í gegn á meðal unga fólksins og það liggur því beinast við að kanna hvort framhald verði á samstarfi Steinda og Bents, en þeir hafa framleitt þættina í sameiningu. Pálmi Guðmundsson, sjónvarpsstjóri Stöðvar 2, tekur undir með Steinda og segir fullan vilja fyrir að gera aðra seríu með félögunum.

„Við höfum þegar óskað eftir annarri seríu," segir hann. „Það eru komnar nokkrar vikur síðan. Við höfum virt það við þá að þeir vildu klára fyrstu seríuna - aðeins að anda og svo byrja að undirbúa næstu."

Óvíst er hvenær næsta sería hefst, en Steindi og Bent eru þegar byrjaðir að sanka að sér hugmyndum og þróa nýja karaktera. „Við ætlum að byrja að skrifa á næstunni," segir Steindi.

„Við erum komnir með fullt af hugmyndum og komnir með drög að þessu öllu saman. Við erum að finna nýja karaktera - það heldur enginn áfram. Þessi sería er bara þessi sería. Það verða nýir karakterar og allt nýtt." - afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×