Innlent

Viðrar vel til skákiðkunar

SB skrifar
Hrafn Jökulsson, skáktrúboði á norðurhjara veraldar.
Hrafn Jökulsson, skáktrúboði á norðurhjara veraldar.

"Stemningin er mjög góð. Hingað eru að streyma góðir gestir á öllum aldri. Hér er bjart, blæs örlítið, en veðrar mjög vel til skákiðkunar," segir Hrafn Jökulsson, rithöfundur og óþreytandi skákjöfur. Hrafn á veg og vanda af skákhátíð sem haldin er í Djúpuvík í Árneshreppi um helgina.

"Þetta er þriðja árið í röð sem haldin er stórhátíð í Árneshreppi," segir Hrafn en í dag klukkan eitt hefst afmælismót til heiðurs Friðriks Ólafssonar stórmeistara en Friðrik verður sjálfur meðal keppenda.

Hrafn flutti fyrir nokkrum árum af mölinni norður í Árneshrepp og hefur gert heimkynnum sínum skil í bókinni Þar sem vegurinn endar. Það liggur því beint við að spyrja hví jafn afskekktur staður og Djúpavík hafi verið valinn undir hátíðina.

"Já, það er rétt. Það er hérna sem vegurinn endar. En hér er líka rík skákhefð frá gamalli tíð. Menn hafa alltaf teflt mikið á ströndum. Og þegar ég fluttist hingað langaði mig að gera veg skákarinnar meiri."

Meðal keppenda á skákhátíðinni um helgina verða stórmeistararnir Helgi Ólafsson og Jóhann Hjartarson en Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra mun setja mótið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×