Lífið

Heiður að vinna með Ómari Ragnarssyni

Andri Freyr Viðarsson útvarpsmaður.
Andri Freyr Viðarsson útvarpsmaður.
„Við félagarnir verðum „krúsandi“ um landið alla föstudaga og verðum með innslög sem heita Ómar og Andri á flandri. Við ætlum að kíkja í heimsókn í smábæina og dýfa tánum í sumarhátíðirnar og ég ætla meðal annars að draga karlinn með mér á Eistnaflug og í heimsókn til pabba. Þetta verður mjög fallegt allt saman,“ segir útvarpsmaðurinn vinsæli, Andri Freyr Viðarsson.

Hann mun stýra laufléttum laugardagsþætti á Rás 2 í sumar og hefur útvarpsmaðurinn fengið engan annan en Ómar Ragnarsson til liðs við sig.

Þetta er í fyrsta sinn sem Andri og Ómar starfa saman og segir Andri það vera mikinn heiður að fá tækifæri til að vinna með Ómari.

 „Það var mjög gaman að hitta meistarann. Hann varð líka mjög feginn að hitta mig í eigin persónu því kvöldinu áður hafði hann dreymt að ég væri tveir metrar á hæð og kæmist ekki fyrir í bílnum hans.“

Inntur eftir því hvernig sé að vera kominn heim á ný segir Andri það gott. „Ég er eiginlega nýlentur og er rétt svo að tékka mig inn, en það er alltaf gott að koma heim.“

Andri og Ómar verða í beinni útsendingu í útvarpsþættinum Popplandi á föstudögum ásamt því sem þeir verða með innslög í þætti Andra sjálfs.

Þátturinn fer í loftið strax eftir hádegisfréttir á laugardögum og segist Andri Freyr ætla dusta rykið af gamalkunnum dagskrárliðum líkt og Flóamarkaðinum, Leynigestinum og Bak við lagið.

Áður stýrði Andri hinum vinsæla útvarpsþætti Litlu Hafmeyjunni ásamt Dodda litla og sendi Andri þá út beint frá heimili sínu í Kaupmannahöfn. Aðspurður segist hann ekki óvanur því að stýra útvarpsþætti einn en viðurkennir að hann muni sakna félagsskapar Dodda í hljóðverinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.