Innlent

Gefur köttum að éta á meðan hún á mat

Elísabet Brynjólfsdóttir Hvað er svona brotlegt við það að gefa tveimur læðum dálítinn fisk og mjólkurdreitil, spyr Elísabet sem reglulega fóðrar útigangsketti sem sækja að garðhurðinni hennar.Fréttablaðið/Stefán
Elísabet Brynjólfsdóttir Hvað er svona brotlegt við það að gefa tveimur læðum dálítinn fisk og mjólkurdreitil, spyr Elísabet sem reglulega fóðrar útigangsketti sem sækja að garðhurðinni hennar.Fréttablaðið/Stefán

„Ég læt þessa menn ekki kúga mig. Ég gef þeim að éta sem ég vil – bæði fólki og köttum,“ segir Elísabet Brynjólfsdóttir, 77 ára íbúi á Hrafnistu í Hafnarfirði, sem viðurkennir ekki bann stofnunarinnar við því að íbúar fóðri villiketti.

Elísabet segir tvær læður sækja að íbúð hennar á jarðhæð Hrafnistu. Hún gefi þeim að éta svo lengi sem hún eigi mat.

„Þessir háu herrar verða að athuga að ég vil ekki mýs hérna. Ég hef fengið mús og konan við hliðina á mér flýði til mín undan músum. Er ekki betra að hafa kisurnar í hrauninu heldur en mýs eða rottur?“ spyr Elísabet ósátt við aðgerðir gegn útigangsköttunum.

„Þeir enduðu jólin í fyrra á að ná í síðasta kettlinginn þegar þeir voru búnir að drepa móðurina og systkinin,“ segir Elísabet sem skorar á stjórnendur Hrafnistu að sýna í hvaða skjóli þeir telji sig geta bannað íbúum að fóðra dýrin.

„Þeir sögðu að þetta væri stranglega bannað en ég bað þá að koma með þann lagabókstaf sem segir að ég megi ekki gefa þessum dýrum. Ég ætla hvorki að spyrja þá lægstu né hæstu á Hrafnistu hvað ég geri á meðan ég borga fyrir veru mína 130 til 140 þúsund á mánuði. Þeir verða þá bara að reka mig út.“ - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×