Enski boltinn

Boateng til Manchester City

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jerome Boateng í leik með þýska landsliðinu.
Jerome Boateng í leik með þýska landsliðinu. Nordic Photos / Bongarts
Jerome Boateng gekk í dag til liðs við Manchester City og samdi við félagið til næstu fimm ára.

Boateng er 21 árs gamall Þjóðverji og lék síðast með Hamburg í heimalandinu. Hann er nú með þýska landsliðinu sem undirbýr sig fyrir HM í Suður-Afríku.

Hann þykir öflugur varnarmaður og getur bæði spilað sem miðvörður og bakvörður.

„Þetta eru mjög góð tíðindi fyrir Manchester City og ég er afar ánægður með að hann sé kominn til félagsins," sagði knattspyrnustjórinn Roberto Mancini í dag.

„Hann er ungur leikmaður sem er nú þegar mjög góður. En ég held að hann geti orðið enn betri hjá City. Það er líka gott að þetta skuli vera komið á hreint svo hann geti einbeitt sér að því að spila með þýska landsliðinu."

Boateng er yngri bróðir Kevin-Prince Boateng sem verður með landsliði Gana á HM í sumar. Báðir ólust þeir upp í Þýskalandi en faðir þeirra er frá Gana.

Kevin-Prince lék með Portsmouth í vetur en í bikarúrslitaleik liðsins gegn Chelsea meiddist Michael Ballack, leikmaður Chelsea og fyrirliði þýska landsliðsins, eftir tæklingu hans með þeim afleiðingum að Ballack missir af HM í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×