Lífið

Askan sendir Lindsay í steininn

Askan frá Eyjafjallajökli gæti reynst Lindsay Lohan dýr því hún á það á hættu að lenda í fangelsi ef henni tekst ekki að komast til Bandaríkjanna frá Cannes í tæka tíð.
Askan frá Eyjafjallajökli gæti reynst Lindsay Lohan dýr því hún á það á hættu að lenda í fangelsi ef henni tekst ekki að komast til Bandaríkjanna frá Cannes í tæka tíð.

Eyjafjallajökull heldur áfram að hrella stórstjörnur enda hefur askan frá eldgosinu sett flugsamgöngur úr skorðum undanfarna daga. Lindsay Lohan gæti verið í vondum málum.

Svo gæti farið að askan frá Eyjafjallajökli ætti eftir að senda bandaríska vandræðagemlinginn Lindsay Lohan í fangelsi. Frá þessu er greint á vefsíðunni tmz.com. Lindsay er nú stödd á kvikmyndahátíðinni í Cannes þar sem hún er að kynna ævisögulega kvikmynd klámmyndaleikkonunnar Lindu Lovelace en hún varð heimsfræg fyrir leik sinn í Deep Throat.

Leikkonan á hins vegar að mæta í réttarsal á fimmtudaginn en ekki er víst með flug frá Cannes til Kalíforníu og því hugsanlegt að Lohan komist alls ekki heim. Samkvæmt TMZ.com gæti þetta þýtt að Lindsay yrði sett bak við lás og slá í stuttan tíma enda virðist þolinmæði dómstóla á þrotum gagnvart gömlu barnastjörnunni sem, samkvæmt TMZ.com, hefur ekki haft fyrir því að mæta á fundi AA-samtakanna eins og hún var dæmd til að gera fyrir ekki margt löngu. Lögfræðingar Lohan hafa hins vegar vísað þeim ásökunum á bug og segja hana hafa mætt á tíu af þrettán fundum, nú síðast á föstudaginn.

Lindsay er hins vegar himinlifandi yfir að hafa landað hlutverki Lindu og vonast til að myndin blási nýju lífi í leikferilinn sem hefur vægast sagt legið niður á við með tilheyrandi áfengis-og eiturlyfjaneyslu eins og heimspressan hefur fjallað ítarlega um. Orðrómur hefur verið á kreiki um Bill Pullman leiki sjálfan Hugh Hefner í áðurnefndri mynd.

Lindsay er ekki eina glamúrdrottningin sem varð fyrir barðinu á öskunni því brjóstabomban Kim Kardashian varð að láta sér nægja að horfa á Formúlu eitt-kappaksturinn í sjónvarpi því hún komst ekki flugleiðina til Mónakó. Verra þótt henni hins vegar, ef marka má twitter-síðuna, að fegrunarliðið hennar, sem samanstendur af hárgreiðslumanni, stílista og förðunarmeistara, skyldi komast þangað en þau komast hins vegar ekki aftur heim.

freyrgigja@frettabladid.is






Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.