Enski boltinn

Benitez: Stjórnarmenn Liverpool vissu ekkert um fótbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rafael Benitez, þjálfari Internazionale Milano.
Rafael Benitez, þjálfari Internazionale Milano. Mynd/AFP
Rafael Benitez, þjálfari Internazionale Milano á Ítalíu, er ekki búinn að segja sitt síðasta í orðastríðinu við sitt gamla félag Liverpool. Benitez lætur nú síðast stjórnina hjá Liverpool heyra það en það hefur komið vel fram í fjölmiðlum að Benitez náði aldrei vel saman við stjórnarmenn félagsins.

„Á mínu síðasta ári hjá Liverpool var ég með stjórnarmenn sem vissu ekkert um fótbolta og ég gat því ekkert talað um fótbolta við þá," sagði Rafael Benitez í viðtali við BBC.

„Ég á hinsvegar mjög gott samband við Massimo Moratti, forseta Inter, og þar á ferðinni maður sem veit eitthvað fótbolta," sagði Benitez.

Rafael Benitez hætti með Liverpool-liðið í sumar eftir sex ára starf og eftir að liðið náði aðeins sjöunda sætinu í deildinni og missti því af Meistaradeildinni. Hann fór síðan yfir til Ítalíu og tók við liði Internazionale Milan af Jose Mourinho.

Internazionale-liðið hefur spilað þrjá leiki undir stjórn Benitez í ítölsku A-deildinni og er sem stendur í 2. sæti með 2 sigra og 1 jafntefli.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×