Viðskipti innlent

FME veitir undanþágu frá yfirtökuskyldu á Icelandair

Fjármálaeftirlitið (FME) hefur ákveðið að Framtakssjóði Íslands skuli veitt skilyrt undanþága frá tilboðskyldu samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti til að fara með allt að 32,5% hlutafjár í Icelandair vegna þátttöku Framtakssjóðsins í fjárhagslegri endurskipulagningu Icelandair.

Fjallað er um málið á vefsíðu FME. Þar segir að Fjármálaeftirlitið hafi haft til skoðunar undanþágubeiðni Framtakssjóðs Íslands frá tilboðsskyldu í Icelandair.

Þann 14. júní 2010 undirrituðu Framtakssjóðurinn og Icelandair áskriftarsamning um nýtt hlutafé í Icelandair þar sem Framtakssjóðurinn skráði sig fyrir 1.200 milljón hlutum á genginu 2,5 krónur eða að söluverði 3 milljarðar kr. Var m.a. gert skilyrði fyrir kaupunum að Framtakssjóðnum yrði veitt undanþága frá yfirtökuskyldu gerðist þess þörf.

Að uppfylltum skilyrðum sem sett eru fyrir fjárfestingu Framtakssjóðsins mun sjóðurinn með kaupum sínum eignast 32,5% hlutafjár í Icelandair. Þannig mun Framtakssjóðurinn eignast 32,5% af atkvæðisrétti í Icelandair og fara þar með yfir mörk ... og verða tilboðsskyldur gagnvart öðrum hluthöfum Icelandair.

Yfirtökureglum laganna er ætlað að koma í veg fyrir að einn aðili nái yfirráðum, þ.e. að atkvæðisréttur annarra hluthafa verið gagnslaus og verðlaus. Fjármálaeftirlitið getur varið aðra hluthafa félagsins gegn ofríki stærsta hluthafans með því að takmarka atkvæðisrétt hans, á meðan eign hans er yfir yfirtökumörkum. Með því móti er leitast við að atkvæðisréttur annarra hluthafa haldi vægi sínu.

Sett eru þau skilyrði fyrir undanþágunni að Framtaksjóðnum ber að selja svo stóran hlut af eign sinni í Icelandair að félagið fari ekki lengur, beint eða óbeint, með yfirráð í félaginu eins fljótt og unnt er eða innan 12 mánaða. Fjármálaeftirlitið getur framlengt þennan frest, ef sérstakar ástæður mæla með því.

Framtakssjóðnum skal einungis vera heimilt að nýta allt að 30% virkra atkvæða í félaginu. Með virkum atkvæðum er átt við heildarfjölda atkvæða að frádregnum þeim atkvæðisrétti sem fellur niður vegna þessa.

Fjármálaeftirlitið fer fram á að Framtakssjóðurinn í samvinnu við Icelandair upplýsi Fjármálaeftirlitið reglulega um framgang hinnar fjárhagslegu endurskipulagningar. Þá fer Fjármálaeftirlitið fram á að áætlun um endursölu sé kynnt því með minnst viku fyrirvara.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×