Körfubolti

Brynjar: Búið að pumpa upp Keflvíkingana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brynjar Þór Björnsson.
Brynjar Þór Björnsson.
Brynjar Þór Björnsson og félagar í KR sækja Keflvíkinga heim í Iceland Express deild karla í kvöld en þrátt fyrir að KR sé búið að vinna 3 af fyrstu 4 leikjum sínum í deildinni er Brynjar ekki sáttur með spilamennskuna. Hann var í viðtali fyrir leikinn inn á heimasíðu KR.

„Það búast við miklum átökum. Það er heldur betur búið að vera að pumpa upp Keflvíkingana með greinum á vísi um lélegustu byrjun í sögu Keflvíkinga og ef ég þekki þá rétt þá munu þeir nýta sér það og koma brjálaðir til leiks," sagði Brynjar meðal annars í viðtalinu.

„Leikur KR hefur alls ekki verið sannfærandi en okkur finnst liðið vera að stíga í rétta átt. Liðið hefur auðvitað breyst aðeins en mórallinn er góður og ég veit að við munum sýna okkar besta leik á föstudaginn [í kvöld]," sagði Brynjar sem telur að KR-liðið geti bætt sig mikið.

„Við erum langt frá okkar besta og eigum mikið inni," sagði Brynjar í þessu viðtali á KR-síðunni sem má finna í fullri lengd með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×