Körfubolti

Jón Halldór: Átti ekki von á að stela sigrinum svona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Daníel
Jón Halldór Eðvaldsson, þjálfari Keflavíkur, var kátur þegar hann kom brosandi út úr klefanum eftir sigursöngva með leikmönnum sínum eftir dramatískan 103-101 sigur á Hamar í þriðja leik liðanna í undanúrslitaeinvígi  Iceland Express deildar kvenna sem fram fór í Hveragerði. Keflavík er þar með 2-1 yfir og kemst í lokaúrslitin með næsta sigri.

 

„Þetta var ótrúlegt í alla staði. Við ætluðum að koma hingað og stela þessum leik en við vissum líka að þetta yrði rosalega erfitt að spila hérna. Ég átti samt ekki von á því að við myndum stela honum svona," sagði Jón Halldór Eðvaldsson.

 

Kristi Smith tryggði Keflavík sigurinn með þriggja stiga körfu fjórum sekúndum fyrir leikslok. „Kristi er frábær leikmaður og hún vissi það vel að hún var ekki búin að gera vel í síðustu tveimur leikjum. Hún gerði vel í dag og ég sé ekki eftir því að hafa fengið hana til landsins," sagði Jón Halldór.

 

„Hamarsliðið er rosalega vel mannað og þær eru með mjög góðan Pólverja sem er svakalega inn í teig og það er ekki hægt að eiga við hana. Hún skorar liggur við þegar henni dettur það í hug. Ef þú tekur pappírinn og berð okkar lið saman við Hamarsliðið þá er algjörlega klárt að þær eru betri á pappírunum. Við vissum alltaf að þetta yrði mjög erfitt," sagði Jón Halldór.

 

„Planið var alltaf að vinna þennan leik en ekki fyrsta leikinn. Það gekk upp sem betur fer. Þetta er alls ekki búið og langt í frá. Ef ég þekki Ágúst Björgvinsson rétt þá á hann eftir að stilla strengina hjá sínu liði fyrir næsta leik," segir Jón Halldór lið hans kemst í lokaúrslitin með sigri í fjórða leiknum á sunnudaginn.

 

„Við þurfum að vinna einn leik í Hveragerði til þess að eiga möguleika á því að vinna. Við við töldum að þetta væri leikurinn til þess að vinna. Það heppnaðist sem betur fer. Nú er þetta í okkar höndum," sagði Jón Halldór.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×