Enski boltinn

Ashley Cole og Nicolas Anelka verða hvíldir á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ashley Cole og Nicolas Anelka.
Ashley Cole og Nicolas Anelka. Mynd/AFP
Ashley Cole og Nicolas Anelka fóru ekki með Chelsea til Marseille þar sem að liðið mætir heimamönnum í lokaleik riðilakeppni Meistaradeildarinnar á morgun. Leikurinn skiptir ekki miklu máli því það er þegar ljóst að Chelsea-liðið vinnur riðilinn og Marseill fylgir þeim í 16 liða úrslitin.

Frank Lampard er enn frá keppni vegna meiðsla en Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, vonast til þess að hann geti verið með á móti Tottenham í ensku úrvalsdeildinni um næstu helgi. Yuri Zhirkov, Alex og Yossi Benayoun eru líka allir frá vegna meiðsla.

John Terry komst heill í gegnum Everton-leikinn og Ancelotti ætlar að láta hann spila í Frakklandi. Ítalski miðjumaðurinn Jacopo Sala fær að vera með í fyrsta sinn í útileik í Meistaradeildinni og aðrir ungir menn í hópnum eru Billy Clifford, Josh McEachran, Gael Kakuta, Patrick van Aanholt og Jeffrey Bruma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×