Viðskipti erlent

Reyndur sérfræðingur ráðinn í tiltektina á Eik Banki

Bankaumsýsla Danmerkur, Finansiel Stabilitet, hefur ráðið hinn reynda bankasérfræðing Jörn Astrup Hansen til þess að stjórna tiltektinni sem framundan er hjá Eik Banki. Hansen er m.a. sérfræðingur í efnahagsmálum á Íslandi og í Færeyjum en hann skrifaði viðauka í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþings um bankahrunið hér á landi.

Í frétt um málið á business.dk segir að Hansen hafi m.a. verið fenginn til að endurskipuleggja Færeyjabanka (nú BankNordik) á sínum tíma. Tókst honum að endurvekja Færeyjabanka sem traustann og ábatasaman banka.

Í tilkynningu frá Finansiel Stabilitet segir að þegar endanlega verður búið að ganga frá yfirtöku Eik Banki muni bankaumsýslan reyna að selja bankann aftur.

Bankaumsýslan metur það sem svo að auðvelt verði að selja færeyska hluta bankans, en þar hafa bæði móðurfélagið TF Holding sem og skilanefnd Kaupþings lýst yfir áhuga sínum á að leggja fram fjármagn til að halda starfseminni í Færeyjum áfram.

Hvað dótturbankann í Danmörku varðar, Eik Bank, sem er stærsti netbanki Danmerkur með um 100.000 viðskiptavini verður reynt að selja þá starfsemi í hendur annars dansks banka.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×