Útrásavíkingurinn Jón Ásgeir Jóhannesson hefur ekki verið kallaður til skýrslutöku hjá rannsóknarnefnd Alþingi samkvæmt bloggi Sölva Tryggvasonar, fjölmiðlamanns. Samkvæmt heimildum Vísis hefur Bjarni Ármannsson, fyrrum bankastjóri Glitnis, ekki heldur verið kallaður fyrir nefndina.
Jón Ásgeir var stjórnarformaður FL Group, stærsta hluthafa Glitnis. Samkvæmt blogginu hans Sölva þá óskaði Jón Ásgeir eftir að koma upplýsingum um bankann til rannsóknarnefndarinnar. Sjálfur sat hann ekki í stjórn bankans.
Vísir greindi frá því um helgina að Björgólfur Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformaður Landsbankans, hefði verið kallaður til skýrslutöku á föstudaginn í síðustu viku. Það var tveimur dögum eftir að fréttastofa Stöðvar 2 greindi frá því að Björgólfur hefði ekki verið kallaður fyrir nefndina.
Þá hefur Björgólfur Thor Björgólfsson, viðskiptamaður, ekki heldur verið kallaður fyrir nefndina.
Skýrsla rannsóknarnefndarinnar á að koma út 1. febrúar að öllu óbreyttu.