Lífið

Spiluð á 200 útvarpsstöðvum

Margrét Eir, Kristófer Jensson og Erna Hrönn eru hluti af hljómsveitinni Thin Jim.
Margrét Eir, Kristófer Jensson og Erna Hrönn eru hluti af hljómsveitinni Thin Jim.
Fjögurra laga plata hljómsveitarinnar Thin Jim hefur fengið mikla spilun á útvarpsstöðvum í Kanada og Bandaríkjunum síðan hún kom út í mars.

„Við erum að fá mikil viðbrögð, sérstaklega í Kanada. Það er verið að spila plötuna á yfir tvö hundruð útvarpsstöðvum og það er stór hópur sem bíður eftir plötunni okkar,“ segir bassaleikarinn Jökull Jörgensson og á þar við fyrstu stóru plötu Thin Jim sem er væntanleg í nóvember.

Fyrr á árinu þegar Fréttablaðið ræddi við Jökul voru tólf útvarpsstöðvar vestanhafs byrjaðar að spila fjögurra laga plötuna en sú tala hefur heldur betur hækkað síðan þá. Svo virðist því sem íslenska kántrípoppið falli sérlega vel í kramið í Norður-Ameríku.

Stefgjöldin sem fást fyrir þessa miklu spilun verða vafalítið há en sú upphæð verður þó ekki greidd fyrr en á næsta ári. „Ég fór með spilunarlistana í Stef um daginn og þeir göptu þegar maður kom með alla þessa lista,“ segir Jökull. Hann vonar að upphæðin verði sæmileg. „Þetta er eitthvað sem við gætum notað í tónleikaferðir eða eitthvað slíkt.“

Hinn nífaldi Grammy-verðlaunahafi, Gary Paczosa, er um þessar mundir að hljóðblanda nýju plötuna. „Hann var að skila „mixi“ að einu lagi sem við erum gjörsamlega í skýjunum með,“ segir Jökull. Næstu tónleikar Thin Jim verða á Rósenberg kl. 21.30 í kvöld. - fb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.