Fellibylurinn Matthew gekk yfir Mið-Ameríku og suðurhluta Mexíkó um helgina.
Í Hondúras þurftu að minnsta kosti 6.600 manns í átta héruðum að yfirgefa heimili sín auk þess sem níu brýr skemmdust vegna flóða. Yfir fimm hundruð manns þurftu einnig að yfirgefa heimili sín í Gvatemala og þjóðvegum var lokað.
Mikil rigning hefur verið í Gvatemala undanfarna mánuði og hafa 274 manneskjur dáið af völdum hennar. Mannvirki hafa einnig skemmst og er tjónið metið á um 120 milljarða króna.- fb