Innlent

Með myndavélar og skartgripi

Lögreglan á Suðurnesjum
Handtók mennina tvo í fyrradag.
Lögreglan á Suðurnesjum Handtók mennina tvo í fyrradag.

Tveir menn, á þrítugsaldri, voru í gær úrskurðaðir í viku langt gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Þeir eru grunaðir um innbrot og þjófnaði úr heimahúsum í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum, sem handtók þá í fyrradag.

Við húsleit sem gerð var heima hjá mönnunum, sem báðir eru af erlendu bergi brotnir, fannst nokkurt magn muna sem lögregla telur tengjast innbrotunum sem hún hefur rannsakað að undanförnu. Þar á meðal mátti finna myndavélar, skartgripi og fleiri muni.

Að sögn Óla Ásgeirs Hermannssonar, saksóknarfulltrúa lögreglustjórans á Suðurnesjum, bar handtöku mannanna að með þeim hætti að árvökull borgari tilkynnti um grunsamlegar mannaferðir í Reykjanesbæ. Lögregla hafði áður beint þeim tilmælum til fólks að það léti vita af slíkum tilvikum og kom tilkynningin nú lögreglunni á sporið.

Mennirnir hafa dvalist í umdæminu að undanförnu. Þeir hafa báðir komið við sögu lögreglu hér á landi áður og verið staðnir að þjófnaðarbrotum, en beðið er gagna frá heimalandi þeirra um hvort þeir eigi afbrotaferil þar.

- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×