Lífið

Skandall skekur H&M

Logið að viðskiptavinum? Sænski verslunarrisinn H&M eyðileggur og hendir fatnaði í stað þess að gefa til hjálparstofnana samkvæmt yfirlýstri stefnu fyrirtækisins.
Logið að viðskiptavinum? Sænski verslunarrisinn H&M eyðileggur og hendir fatnaði í stað þess að gefa til hjálparstofnana samkvæmt yfirlýstri stefnu fyrirtækisins.
Mikill styr stendur þessa dagana um eina af uppáhaldsbúðum Íslendinga, Hennes & Mauritz. Sænska dagblaðið Expressen sakar verslanakeðjuna um að ljúga að viðskiptavinum sínum. Málið snýst um fatnað sem stenst ekki gæðakröfur fyrirtækisins. Það hefur verið yfirlýst stefna H&M að flíkurnar séu gefnar til hjálparstofnana en Expressen segir að það sé rangt, fyrirtækið eyðileggi í raun fatnaðinn og hendi honum.

Myndbrot sem sýnir starfsmann í einni af fjölmörgum búðum verslanakeðjunnar klippa og rífa fatnað á meðan hann afgreiðir viðskiptavin hefur gengið eins og eldur um sinu á netmiðlum. Myndbandið er tekið upp á síma og hafði sá sem tók það upp orð á því að starfsstúlkan klippti niður boli og buxur með æfðum handtökum og henti í svartan ruslapoka.

Í kjölfarið tók Expressen viðtöl við tíu starfsmenn í búðum víðs vegar í Svíþjóð sem staðfesta að þeim sé sagt að ljúga að viðskiptavinum ef þeir séu spurðir út í þetta. „Við höfum aldrei heyrt um neinar gjafir til góðgerðarmála og klippum niður allt að tuttugu flíkur á dag sem koma inn með smávægilega galla,“ hefur blaðið eftir starfsmönnum verslanakeðjunnar.

Hennes & Mauritz hefur ávallt gefið sig út fyrir að gefa fatnað til hjálparstofnana og þvertekur fyrir að farga fatnaði. Þetta er óneitanlega svartur blettur á annars tiltölulega flekklausri fortíð sænska verslunarrisans, sem hefur skapar sér fastan sess í hjörtum verslunarglaðra Íslendinga.- áp





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.