Viðskipti innlent

Vill síður selja orku til álvera

Ross Beaty.
Ross Beaty.

Ross Beaty, hinn kanadíski eigandi Magma Energy, móðurfélags HS Orku, gefur í skyn í bréfi sem hann skrifaði Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra nýlega, að hann hafi lítinn áhuga á að HS Orka selji orku til álvers Norðuráls í Helguvík. Hann kjósi frekar að sú „græna orka" sem HS Orka framleiðir úr jarðvarma á Reykjanesi og Svartsengi verði seld öðrum kaupendum en álveri.

Samkvæmt heimildum blaðsins setur Beaty þetta fram í bréfinu sem persónulega skoðun sína. Græn orka sé eftirsótt, fyrirtæki erlendis séu tilbúin að greiða fyrir hana mun hærra verð en gert er ráð fyrir í samningum íslenskra orkufyrirtækja við Norðurál og önnur álfyrirtæki.

Áður er komið fram að í þessu bréfi var íslenska ríkinu boðinn forkaupsréttur að ráðandi hlut í fyrirtækinu og einnig opnað á viðræður Magma við íslenska ríkið um styttingu 65 ára leigutíma HS Orku á auðlindum á Reykjanesi.

Fréttablaðið hefur óskað eftir því við iðnaðarráðuneytið að fá aðgang að bréfinu. Sú beiðni er til meðferðar í ráðuneytinu.

Fram hefur komið í fréttum RÚV að Norðurál hefur vísað deilu við HS Orku til gerðardóms í Svíþjóð þar sem orkufyrirtækið vanefni samning um afhendingu orku til álversins í Helguvík.

- pg








Fleiri fréttir

Sjá meira


×