Enski boltinn

Cole: Ekki erfið ákvörðun þegar ég vissi að Liverpool hafði áhuga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joe Cole.
Joe Cole. Mynd/AFP
Joe Cole er búinn að gefa sitt fyrsta viðtal síðan að hann gerðist leikmaður Liverpool. Hann var í viðtali við heimasíðu Liverpool í dag.

„Ég setti mér tímamörk til að taka þessa ákvörðun. Þegar ég var búinn að ákveða mig þá sendi ég Christian Purslow og Steven Gerrard sms-skeyti og slökkti síðan á símanum mínum. Ég veit að ég tók rétta ákvörðun og hlakka til alvöru verkefnis," sagði Joe Cole.

„Þetta verður mjög nýtt fyrr mig. Ég er búinn að spila allt mitt líf í London. Ég hefði getað verið áfram í Chelsea því stuðningsmennirnir elskuðu mig og ég var að vinna titla. Ég vildi hinsvegar fá nýtt og krefjandi verkefni," sagði Cole.

„Þetta var ekki erfið ákvörðun um leið og ég vissi að Liverpool hafði áhuga. Þetta er stærsta félagið í landinu," sagði Cole sem hrósar því sem nýi stjórinn hafði að segja.

„Ég var mjög hrifinn af því sem Roy Hodgson sagði. Liðið endaði í 7. sæti sem var ekki nógu gott en hann útskýrði fyrir mér hvað félagið ætlaði að gera. Félagið er búið að vera með spænska og franska stjóra síðustu árin og ég held að það komi ferskir vindar með enskum stjóra," sagði Joe Cole.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×