Fótbolti

Kristján Örn samdi við Hönefoss

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kristján Örn Sigurðsson er farinn frá Brann.
Kristján Örn Sigurðsson er farinn frá Brann.

Kristján Örn Sigurðsson hefur ákveðið að ganga að tilboði nýliða Hönefoss í norsku úrvalsdeildinni og samdi hann við liðið til næstu tveggja ára.

Norskir fjölmiðlar fullyrtu í gær að Kristjáni Erni stæði til boða að fá tvær milljónir norskra króna í árslaun hjá félaginu eða rúmar 44 milljónir íslenskra króna.

Það fékkst svo staðfest í gærkvöldi að Kristján Örn hefði gengið frá samningum við Hönefoss.

„Þetta hefur allt gengið frekar fljótt fyrir sig," sagði hann í samtali við norska fjölmiðla. „Markmið mitt upphaflega var að komast að hjá félagi erlendis og þess vegna beið ég svo lengi með að ganga frá mínum samningsmálum. En þetta gekk ekki eftir að þessu sinni og ég vildi ekki tefla á tvær hættur með því að bíða enn lengur."

Kristján Örn lék með Brann frá 2005 fram á síðasta tímabil og varð Noregsmeistari með liðinu árið 2007. Samningur hans við Brann rann út í haust.

Spurður um af hverju hann hafi ákveðið að yfirgefa Brann sagði Kristján Örn að honum hafi einfaldlega ekki verið boðinn nýr samningur hjá félaginu.

Því neitaði hins vegar Roald Bruun-Hanssen, yfirmaður íþróttamála hjá Brann, í norskum fjölmiðlum í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×