Enski boltinn

Mörg ensk lið á eftir Benfica-manninum Oscar Cardozo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Oscar Cardozo skorar hér á móti Liverpool í Evrópudeildinni.
Oscar Cardozo skorar hér á móti Liverpool í Evrópudeildinni. Mynd/AFP
Oscar Cardozo stóð sig frábærlega með Benfica í leikjunum á móti ensku liðunum Everton og Liverpool í Evrópudeildinni í vetur. Frammistaða þessa 27 ára sóknarmanns hefur kveikt mikinn áhuga hjá nokkrum enskum liðum sem trúa á að hann geti staðið sig vel í ensku úrvalsdeildinni.

Daily Mail segir frá því að Tottenham, Manchester City, Everton og Sunderland séu öll að reyna að fá til sín leikmanninn sem varð markakóngur portúgölsku deildarinnar í vetur en það var frammistaðan í Evrópudeildinni sem kom honum þó á kortið.

Oscar Cardozo skoraði tvö mörk á tveimur mínútum í 5-0 sigri Benfica á Everton og gerði öll þrjú mörk Benfica í leikjunum tveimur á móti Liverpool í 8 liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Cardozo gerði alls 38 mörk í 46 leikjum með Benfica á tímabilinu þar af 26 mörk í 28 deildarleikjum þar sem Benfica tryggði sér meistaratitilinn.

Oscar Cardozo verður líka í sviðsljósinu með Paragvæ á HM í Suður-Afríku þar sem hann spilar væntanlega við hliðina á Roque Santa Cruz í framlínu liðsins en Paragvæ er með Ítalíu, Slóvakíu og Nýja-Sjálandi í riðli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×