Viðskipti erlent

JP Morgan fær risasekt í Bretlandi

Breska fjármálaeftirlitið (FSA) hefur skellt risavaxinni sekt á JP Morgan Securites. Sektarupphæðin nemur 33,3 miljónum punda eða um 6,3 milljörðum kr. Í frétt um málið á BBC segir að þetta sé hæsta sekt sinnar tegundar í sögu Bretlands.

 

FSA sektar JP Morgan sökum þess að bankinn blandaði saman fjármunum viðskiptavina sinn við eigin fjármuni á síðustu sjö árum og gætti þar með ekki nægilega hagsmuna viðskiptavinanna.

 

Samkvæmt reglum FSA ber fjármálastofnunum að halda fjármunum viðskiptavina sinna aðskildum í sérstökum sjóðum til að verja viðskiptavinina gegn gjaldþrotum. Fram kemur að starfhættir JP Morgan hvað þetta varðar voru ekki með vilja gerðir og engir viðskiptavinir töpuðu á þeim.

 

Talsmaður JP Morgan segir að bankinn hafi unnið að lausn málsins í samvinnu við FSA. Sökum þessa veitti FSA bankanum 30% afslátt á sektinni en upphaflega hljóðaði hún upp á 47,6 milljónir punda.

 

Margaret Cole yfirmaður fjármálaglæpadeildar FSA segir að starfshættir JP Morgan hafi verið alvarlegt brot á reglum FSA. Sektarupphæðin sendi öðrum fjármálafyrirtækjum skilaboð um að slíkt verði ekki liðið. Þá boðar Cole að JP Morgan sé ekki eina fjármálafyrirtækið sem hljóti sektir vegna sambærilegra brota.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×