Lífið

Ísland í bandarískri unglingasápu

Aria Montgemery, ein af aðalpersónum unglingasápunnar Pretty Little Liars, náði að yfirvinna sorgina á Íslandi. Hún er leikin af Lucy Hale.
Aria Montgemery, ein af aðalpersónum unglingasápunnar Pretty Little Liars, náði að yfirvinna sorgina á Íslandi. Hún er leikin af Lucy Hale. Mynd/AFP

Ísland hefur enn og aftur áhrif á bandarískt sjónvarpsefni. Að þessu sinni er það unglingasápan Pretty Little Liars sem fjölmiðlungar þar vestra spá að muni verða svipað æði og Aðþrengdar eiginkonur.

Þættirnir voru frumsýndir þann 8. júní siðastliðinn og segja frá vinahópi nokkurra unglingastúlkna sem verða fyrir miklu áfalli þegar besta vinkona þeirra, Alison, hverfur sporlaust. Ári seinna fer einhver undir stafnum „A" að áreita þær og hótar að upplýsa þeirra myrkustu leyndarmál. Og þar er víst af nægu að taka en þáttaröðin byggir á samnefndum skáldsögum Sam Shepard sem notið hafa mikilla vinsælda, meðal annars hér á landi.

Þættirnir hefjast ári eftir hvarf áðurnefndrar Alison og eru vinkonurnar þá að hefja nám í skugga eltihrellisins „A".

Ein af aðalpersónunum, Aria Montgemery sem leikin er af Lucy Hale, hefur þá dvalist í heilt ár á Íslandi ásamt föður sínum, móður og litla bróður en eftir því sem fram kemur í þáttunum hefur Ísland haft góð áhrif á sálarlíf hennar, hjálpað henni að yfirvinna sorgina og finna sjálfa sig. Ekki kemur þó fram af hverju Ísland varð fyrir valinu.

Aria er auðvitað ekki fyrsta bandaríska sjónvarpspersónan sem tengist Íslandi með einum eða öðrum hætti. Carl Carlsson eða Karl Karlsson úr The Simpsons á auðvitað rætur sínar að rekja til Íslands. -fgg












Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.