Innlent

Blönduóssbúar gegn styttingu hringvegar

Blönduós.
Blönduós.

Eindregin andstaða kom fram á íbúafundi á Blönduósi í gærkvöldi gegn ósk Vegagerðarinnar um að stytta hringveginn framhjá bænum. Bæjarstjórnin tekur málið fyrir í næstu viku en ljóst þykir að enginn bæjarfulltrúi styður málið.

Vegagerðin vill stytta leiðina milli Reykjavíkur og Akureyrar um fimmtán kílómetra með því að leggja nýjan veg, svokallaða Húnavallaleið, frá Stóru Giljá og þvert inn í miðjan Langadal, með nýrri brú á Blöndu. Við það myndi hringvegurinn hætta að liggja í gegnum Blönduós.

Viðbrögð bæjarbúa voru svo sem fyrirsjáanleg. Menn voru massíft á móti, segir Valgarður Hilmarsson, forseti bæjarstjórnar, um tóninn á íbúafundinum í gærkvöldi, sem um 50 manns sóttu. Arðsemisútreikningar benda til að þessi stytting sé ein arðbærasta framkvæmd sem unnt er að ráðast í hérlendis en Valgarður segir Blönduósbúa efast um þá útreikninga.

Bæjarstjórnin áformar að taka erindi Vegagerðarinnar fyrir í næstu viku og þykir einsýnt hvernig það verður afgreitt. Valgarður veit ekki um neinn bæjarfulltrúa sem styður málið.

Þar sem aðeins lítill hluti hins áformaða vegar er hugsaður í lögsagnarumdæmi Blönduóss verða Blönduóssbúar líka að treysta á það að nágrannasveitarfélagið Húnavatnshreppur hafni veginum sömuleiðis. Þótt íbúafundur þar hafi ályktað gegn veginum í fyrrakvöld er óvíst að sveitarstjórn Húnavatnshrepps hafni erindi Vegagerðarinnar en hún afgreiddi málið ekki á fundi í gær heldur ákvað að skoða það betur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×