Viðskipti innlent

Hægir á hjöðnun verðbólgu

Orkuveituhúsið. Bein áhrif hækkunar OR er metin 0,39 prósent en um eitt prósent í heild.fréttablaðið/stefán
Orkuveituhúsið. Bein áhrif hækkunar OR er metin 0,39 prósent en um eitt prósent í heild.fréttablaðið/stefán

Vísitala neysluverðs mun hækka um nærri eitt prósent í október, samkvæmt bráðabirgðaspá greiningardeildar Íslandsbanka. Ástæða hækkunarinnar er að langstærstum hluta hækkun Orkuveitu Reykjavíkur á gjaldskrá sinni og eru bein áhrif hennar metin um 0,39 prósent. Hækkunin mun hægja á hjöðnun verðbólgunnar næstu mánuði en ekki koma í veg fyrir hana. Má enn reikna með því að verðbólgan nái verðbólgumarkmiði Seðlabankans snemma á næsta ári, segir í Morgunkorni greiningardeildarinnar frá því í gær.

Fyrir þau heimili sem kaupa veituþjónustu OR nemur hækkunin 0,7 prósentum af heimilisútgjöldum.

Auk beinu áhrifanna má gera ráð fyrir talsverðum óbeinum áhrifum sem koma munu fram í vísitölunni á næstunni. Í Morgunkorni bankans segir að aðrir orkusalar séu „margir hverjir líklegir til að grípa gæsina og hækka orkuverð til notenda utan sölusvæðis OR“. Eins segir að ekki megi líta fram hjá því að raforka er allstór kostnaðarliður hjá mörgum þeim fyrirtækjum sem framleiða innlendar neysluvörur og selja almenningi þjónustu. Verulegur hluti þeirra fyrirtækja „á vart aðra kosti en að ýta hluta þessarar kostnaðarhækkunar út í verðlagið“. - shá






Fleiri fréttir

Sjá meira


×