Innlent

Morðið í Hafnarfirði: Æskuvinur unnustunnar í haldi lögreglu

Unnusta mannsins kom að honum látnum á sunnudaginn.
Unnusta mannsins kom að honum látnum á sunnudaginn.

Maðurinn sem er í haldi lögreglu grunaður um aðild að morðinu á Hannesi Helgasyni aðfararnótt sunnudags tengist unnustu Hannesar, að því er heimildir fréttastofu herma. Þau hafa þekkst frá því í æsku. Lögregla ákveður í dag hvort krafist verði gæsluvarðhalds manninum.



Eftir yfirheyrslu lögreglu seint í gærkveldi yfir íslenskum karlmanni á þrítugsaldri var ákveðið að láta hann ekki lausan heldur hafa hann áfram í haldi vegna gruns um aðild hans að andláti Hannesar.



Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn vildi ekki staðfesta hvort hinn grunaði hafi játað aðild sína að morðinu en sagði frétta að vænta síðar í dag.



Hannes Þór fannst látinn á heimili sínu um hádegisbil á sunnudag en hann virðist hafa verið stunginn með eggvopni oftar en einu sinni. Árásarmaðurinn var á bak og burt þegar unnusta Hannesar kom að honum á sunnudag en árásarmaðurinn virðist hafa farið inn um hurð á heimili Hannesar sem vanalega er ólæst.



Í Fréttablaðinu í morgun segir að nokkurt rót hafi verið í svefnherberginu, þar sem verknaðurinn var framinn, sem bendi til þess að til einhverra stympinga eða jafnvel átaka hafi komið. Mikið blóð var á vettvangi.



Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu verður tekin ákvörðun um hvort krafist verði gæsluvarðhalds yfir manninum síðar í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×