Skoðun

ESB stuðlar að friði

Anna Pála Sverrisdóttir skrifar
Nei, það verður enginn Evrópuher með herskyldu fyrir börnin okkar. Þegar og ef Íslendingar ákveða að ganga alla leið inn í Evrópusambandið verður herskylda ekki áhyggjuefni.

Auðvitað er mjög þægilegt fyrir andstæðinga Evrópusamvinnunnar að halda fram herskyldurökum. Íslendinga skiptir almennt miklu að Ísland sé herlaust ríki. Vopnleysið er hluti af sjálfsmynd okkar svo við erum viðkvæm fyrir hugmyndum um breytingu þar á.

Á opnum umræðufundi í október, þar sem fjallað var um ESB og friðar-/hernaðarmál, var frábært að þurfa ekki að eyða púðri í að rökræða herskyldubullið.

Evrópuvakt Samfylkingarinnar stóð fyrir fundinum en til hans mætti fjöldi fólks úr mismunandi áttum. Ég hefði búist við að eyða mestum hluta umræðutímans í að ræða til dæmis hvernig leiðtogaráð ESB útskýrði á síðasta ári að Lissabon-sáttmálinn (uppfærsla á stofnsáttmálum ESB) mælir ekki fyrir um stofnun Evrópuhers. Þetta var gert í lagalega bindandi yfirlýsingu frá 19. júní 2009. Í henni kemur fram á svona sjö mismunandi vegu hvernig það getur ekki orðið, en meðal annars með þessum orðum: „[S]ameiginleg öryggis- og varnarstefna ESB ... hefur ekki áhrif á öryggis- og varnarstefnu hvers aðildarríkis ... eða skyldur neins aðildarríkis."

Skýrara getur það varla orðið. Öll aðildarríki ESB hafa að auki neitunarvald þegar kemur að utanríkismálum. Mörg standa utan NATO.

Ég er þeirrar einlægu skoðunar að samvinna Evrópuríkja undir merkjum Evrópusambandsins, stuðli að friði. Sambandið var beinlínis stofnað í þeim tilgangi að stilla til friðar í stríðshrjáðri álfu og sú tilraun hefur heppnast.

Þetta þýðir augljóslega minni hernaðarvæðingu og færri hermenn innan ESB, svo sem á landamærum ríkja. Sameiginlega utanríkisstefnan byggir á lýðræði og mannréttindum. Sambandið tekur þannig þátt í friðargæsluverkefnum um heiminn, aðallega borgaralegum og auðvitað samkvæmt forskrift SÞ.

Á fyrrgreindum fundi um ESB og friðarmál náðum við að ræða örlítið þau málefni sem þarfnast alvöru umræðu. Til dæmis um eðli friðargæsluaðgerða sambandsins. Höldum því áfram.

Ég vil að Ísland taki beinan þátt í umræðu um hvernig ESB beitir sér í þágu friðar utan landamæra aðildarríkjanna. Ekki síður finnst mér verkefnið Friður í Evrópu vera verkefni sem við Íslendingar berum ábyrgð á eins og aðrir Evrópubúar.




Skoðun

Sjá meira


×