Lífið

Órafmögnuð og mjúk partí

heiðar austmann Dagskrárstjóri FM 957 býst við skemmtilegum Eldhús­partíum í nóvember.fréttblaðið/stefán
heiðar austmann Dagskrárstjóri FM 957 býst við skemmtilegum Eldhús­partíum í nóvember.fréttblaðið/stefán

„Þetta er orðinn fastur liður og einn af okkar stærstu viðburðum á hverju ári," segir Heiðar Austmann, dagskrárstjóri FM 957. Hin árlegu Eldhúspartí hefja göngu sína á fimmtudagskvöld á skemmti- og veitingastaðnum Austur. Þar koma fram Friðrik Dór, Blaz Roca, Bjarki og félagarnir Steindi Jr. og Ásgeir.

„Þetta er fyrsta kvöldið af þremur. Við ætlum að fá ýmsa flóru af listamönnum og bjóða upp á ólíkar tónlistarstefnur," segir Heiðar. Aðrir sem koma fram næstu fimmtudagskvöld eru Páll Óskar, Dikta, Haffi Haff og Jón Jónsson. Ekki er hægt að kaupa sig inn á Eldhúspartíin en hlustendur geta freistað þess að fá boðsmiða á FM 957.

Eldhúspartíin hófu göngu sína um síðustu aldamót og hafa þau flakkað á milli ýmissa staða í gegnum árin. Í fyrra var viðburðurinn haldinn á Sódómu Reykjavík þar sem krafturinn var í fyrirrúmi. Núna verður aftur farið í gömlu, góðu stemninguna í líkingu við órafmagnaða tónleika MTV-stöðvarinnar.

„Þetta verður berstrípaðra og meira í órafmagnaðri stemningu," segir Heiðar. „Við ætlum að reyna að fara í mjúku hliðina á þessu en samt hafa rosa gaman."

Aðspurður segir hann Eldhúspartíin mjög eftirsótt hjá tónlistarmönnum, enda góður vettvangur til að kynna sig.

„Það hefur aldrei verið vandamál hjá okkur að fá fólk til að spila í Eldhúspartíum. Þetta er orðinn þannig viðburður að hann er með ákveðinn stimpil á sér." - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.