Lífið

Predikarasonur segir frá lífi sínu á nýrri plötu

Sigurður Laufdal er tilbúinn með nýja plötu sem ber nafnið Barn síns tíma.
Sigurður Laufdal er tilbúinn með nýja plötu sem ber nafnið Barn síns tíma. Fréttablaðið/gva

Sigurður Laufdal tónlistarmaður er tilbúinn með nýja plötu sem kemur með haustinu. Sigurður er meðal annars þekktur fyrir þátttöku sína í raunveruleikaþættinum Bandinu hans Bubba fyrir tveimur árum og sem sonur Ómega predikarans Guðlaugs Laufdal.

„Þessi plata er eiginlega ég að segja frá síðustu tíu árum í mínu lífi með tónlistinni," segir Sigurður og bætir við að hann sé mikill unnandi ljóðlistar og semji mikið í tómstundum. Platan, sem ber heitið Barn síns tíma, er hans aðferð til að koma ljóðunum frá sér. Sigurður semur tónlistina og textana sjálfur.

Sigurður er gítarleikari en við gerð plötunnar fékk hann góða menn til liðs við sig. Þetta er fyrsta platan sem hann gefur út en Sigurður vakti athygli árið 2006 fyrir lagið Í frelsarans nafni þar sem hann notaði sín eigin orð til að túlka Biblíuna. Vakti það einna helst athygli vegna þess að faðir hans er Guðlaugur Laufdal sem predikar Guðs orð á sjónvarpsstöðinni Ómega með gítarinn við hönd. Það lag er samt ekki að finna á plötunni.

„Það má eiginlega segja að ég semji eitt lag á ári en á plötunni eru ellefu lög," segir Sigurður og segir að þau fjalli öll um hluti sem hann hefur lent í og karaktera sem hann hefur hitt á seinustu tíu árum. Sjómennskuna sem fór illa í hann og ástina sem hann hefur upplifað. „Ég er með margar góðar sögur. Eitt lagið er til dæmis til Bubba Morthens. Það lag heitir Grafhýsi frægðarinnar en það sagði Bubbi við mig þegar hann rak mig úr öðrum þætti seríunnar. Hann ætlaði að setja mig í grafhýsi frægðarinnar og sagði að ég væri bara lítill sætur strákur í leðurbuxum í fjölmiðlum eftir á," segir Sigurður og bætir við að hann sé nú ekkert ósáttur við Bubba. Hann vilji samt sýna Bubba að það sé meira í hann spunnið en það sem kom fram í þáttunum.

„Ég vil að aðrir geti tengt sig við það sem ég er að semja og syngja um," segir Sigurður að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.