Körfubolti

Tommy fékk að ráða því hvort hann kæmi með í Hólminn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tommy Johnson lét til sín taka í Hólminum í kvöld.
Tommy Johnson lét til sín taka í Hólminum í kvöld.
KR-ingurinn Tommy Johnson átti sinn langbesta leik í langan tíma þegar KR-ingar unnu 19 stiga sigur á Snæfelli í Stykkishólmi í kvöld. Tommy hafði aðeins skorað 11 stig í fyrstu þremur leikjum KR í úrslitkeppninni en skoraði 18 stig í kvöld. Tommy setti meðal annars niður 4 af 7 þriggja stiga skotum sínum.

Páll Kolbeinsson, þjálfari KR, tók Tommy út úr byrjunarliðinu í leiknum og leyfði honum að velja það hvort hann kæmi með í leikinn eða ekki. Það virtist kveikja í kappanum.

„Morgan Lewis kom inn í byrjunarliðið núna og ég held að það hafi hentað okkur betur að láta hann byrja og láta Tommy koma inn af bekknum," sagði Páll.

„Við áttum gott samtal í gær, ég og Tommy og hann fékk að ráða því hvort að hann kæmi með í Hólminn eða ekki. Hann vildi koma með og sýna hvað í honum býr. Hann gerði það í kvöld," sagði Páll.

Tommy hafði verið gagnrýndur fyrir frammistöðu sína enda aðeins með 8,8 stig og 28 prósent skotnýtingu í undanförnum sex leikjum sínum.

„Það er mikil pressa á honum eins og öðrum. Hann verður bara að þola það. Hann er atvinnumaður og ég get ekki þolað það að atvinnumennirnir mínir séu ekki að standa sig. Það er ekki í myndinni," sagði Páll.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×