Enski boltinn

Stjóri Leeds vill halda markahetjunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jermaine Beckford í leiknum gegn United í gær.
Jermaine Beckford í leiknum gegn United í gær. Nordic Photos / Getty Images
Simon Grayson, stjóri Leeds, vill halda markahetjunni Jermaine Beckford en hann hefur verið orðaður við nokkur félög að undanförnu.

Beckford tryggði Leeds ótrúlegan 1-0 sigur á Manchester United á Old Trafford í ensku bikarkeppninni í gær. Hann hefur þegar skorað 20 mörk á tímabilinu með Leeds.

Fjölmiðlar í Englandi hafa fullyrt að Newcastle hafi þegar samið við Beckford en samningur hans við Leeds rennur út næsta sumar.

„Það eru þrír möguleikar í stöðunni," sagði Grayson við enska fjölmiðla. „Hann skrifar undir nýjan samning núna eða bíður til loka tímabilsins og fer þá annað. Versti möguleikinn væri sá að ef við fáum tilboð í hann sem við getum ekki hafnað."

„Við yrðum þó að vera með aðra leikmenn í sigtinu sem gætu fyllt í skarðið hans í slíku tilviki."

Grayson hældi Beckford fyrir frammistöðu hans í leiknum gegn United í gær.

„Hann sýndi hvað í honum býr. Hann leggur mikið á sig fyrir liðið og fékk sitt tækifæri. Hann hefur nú skorað fimm mörk í síðustu þremur leikjum. Hann er vissulega góð söluvara."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×