Lífið

Maggi með Diktu á Players

Í eina sæng Nýstirnið Maggi mix mun hita upp fyrir hina vinsælu hljómsveit Diktu á tónleikum hennar á föstudag. Maggi er fyrir miðri mynd en frá vinstri eru Diktustrákarnir Jón Bjarni, Nonni kjuði, Haukur og Skúli Z.Fréttablaðið/stefán
Í eina sæng Nýstirnið Maggi mix mun hita upp fyrir hina vinsælu hljómsveit Diktu á tónleikum hennar á föstudag. Maggi er fyrir miðri mynd en frá vinstri eru Diktustrákarnir Jón Bjarni, Nonni kjuði, Haukur og Skúli Z.Fréttablaðið/stefán

Hin vinsæla hljómsveit Dikta mun troða upp á skemmtistaðnum Players á föstudag ásamt nýstirninu Magga mix og hljómsveitinni Sing For Me Sandra.

Skúli Z. Gestsson, bassaleikari Diktu, segist mikill aðdáandi Magnúsar Valdimarssonar, öðru nafni Magga mix.

„Við erum klárlega aðdáendur hans eins og hann okkar, þessi strákur er náttúrulega bara snillingur og alveg harðduglegur líka. Við heyrðum það sem hann var að gera á Facebook og ákváðum í kjölfarið að hafa samband við hann og fá hann til að spila með okkur.“ Skúli segir hljómsveitarmeðlimi vel stemmda fyrir tónleikana, en þetta er í fyrsta sinn sem þeir leika á Players.

Þetta ku vera í fyrsta sinn sem Magnús kemur opinberlega fram og segist hann vera mjög spenntur fyrir tónleikunum.

„Umboðsmaður Diktu hafði samband við mig og vildi fá mig til að hita upp á tónleikunum og ég var til í það. Ég er ekki alveg búinn að ákveða hvað ég ætla að gera á tónleikunum nema bara það að ég ætla að halda uppi stuði,“ segir Magnús sem er lítið stressaður fyrir að stíga á svið í fyrsta sinn.

„Ég er bara hress og sprækur og hlakka mikið til að koma fram á Players.“ sara@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×