Fótbolti

Mourinho: Við vorum miklu betri

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Mourinho gefur skipanir í kvöld.
Mourinho gefur skipanir í kvöld.

Jose Mourinho sýndi stuðningsmönnum Chelsea þá virðingu að fagna ekki inn á vellinum eftir að Inter skellti Chelsea á Stamford Bridge í Meistaradeildinni í kvöld.

Mourinho hljóp í átt að búningsklefa rétt áður en flautað var til leiksloka en hann viðurkenndi að hafa fagnað er þangað var komið.

„Ég fagnaði vel og innilega í klefanum. Þetta var risastór sigur fyrir mitt lið," sagði Mourinho.

„Ég hef sagt það áður að ég er fagmaður. Ég elska Chelsea, elska þennan völl, elska þetta fólk en er fagmaður að sinna mínu starfi. Hver veit nema ég þjálfi annað enskt lið síðar og komi aftur hingað sem andstæðingur," sagði Portúgalinn við Sky Sports.

„Mér fannst við vera miklu betri í leiknum. Þetta var ekki spurning um taktík heldur viðhorf. Chelsea var mikið að svekkja sig sem gerist oft þegar lið er yfirspilað. Strákarnir mínir byrjuðu síðari hálfleikinn á stórkostlegan hátt.

„Við vorum einfaldlega miklu betri. Chelsea er frábært lið og það vita allir. Við vissum þess vegna að við yrðum að hafa boltann hjá okkur, annars ættum við ekki möguleika. Allir í mínu liði áttu magnaðan leik. Þetta var næstum fullkomin frammistaða. Við vorum betra liðið," sagði Mourinho en hvað með framhaldið?

„Ég hef lært að við getum unnið öll lið því Chelsea er frábært lið. Chelsea er eitt besta lið heims. Við getum unnið á öllum útivöllum en það eru átta góð lið eftir í keppninni og við gætum hæglega tapað fyrir þeim öllum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×