Erlent

Regnbogaindíáninn kemur til Íslands -myndband

Óli Tynes skrifar
Paul (Svangi Björn) Vasquez.
Paul (Svangi Björn) Vasquez.

Regnbogaindíáninn svokallaði er á leið til Íslands en hann hefur tekið að sér að vera verndari nemendafélags menntaskólans Hraðbrautar. Paul „Svangi Björn" Vasquez varð heimsfrægur eftir að hann setti á netið myndir sem hann tók af tvöföldum regnboga sem hann sá í einni af fjallaferðum sínum. Myndirnar sjálfar voru ekkert listaverk en fölskvalaus gleði og hrifning Vasquez var svo einlæg og smitandi að milljónir manna hrifust með.

Einn af þessum milljónum var Oddur Eysteinn Friðriksson formaður nemendafélags Hraðbrautar. Hann setti sig í samband við Vasquez sem tók því fagnandi að verða verndari nemendafélags á Íslandi. Með styrk frá Símanum og Vífilfelli er nú búið að kaupa farmiða handa regnbogamanninum sem kemur til landsins hinn 15. nóvember ásamt 23 ára dóttur sinni. Hún mun kvikmynda heimsóknina.

Mikið tilstand verður í Hraðbraut í tilefni af heimsókninni. Skólinn verður skreyttur í öllum regnbogans litum og það verður flutt leikrit og kórsöngur fyrir gestinn. Einnig verður farið með hann í skoðunarferðir um landið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×