Innlent

Halinn klipptur af stressuðum grísum

Erla Hlynsdóttir skrifar
Í drögum að nýjum lögum um dýravernd er lagt til bann við því að fjarlægja hala af grísum
Í drögum að nýjum lögum um dýravernd er lagt til bann við því að fjarlægja hala af grísum

Þegar þröngt er um grísi og þeir hafa lítið fyrir stafni eiga þeir til að fara að naga halann hver á öðrum sér til dægrastyttingar. Þetta getur leitt til sýkinga og aukins kostnaðar fyrir svínabú. Vegna þessa tíðkast víða að starfsfólk svínabúa klippir halann af grísunum og styttir tennur þeirra.

„Þetta er gert til að forðast það að þeir fari að naga halann hver á öðrum. Það er kallað cannibalismus þegar dýr leggjast á sömu tegund," segir Sigurborg Daðadóttir, dýralæknir og formaður dýraverndarráðs.

Hún segir að streita, þrengsli og önnur umhverfismál valdi þessari hegðun. Með aukinni kröfu á svínabú að framleiða meira svínakjöt fyrir minni pening er oft heldur þröngt um grísina.

Sigurborg situr í nefnd á vegum umhverfisráðuneytisins sem vinnur að endurskoðun á lögum um dýravernd. „Í þessum nýju drögum leggjum við til að það verði óheimilt að fjarlægja líkamsparta án læknisfræðilegra ástæðna og þar undir fellur hali dýra" segir hún. Grísirnir eru ekki deyfðir áður en þetta er gert.

Þetta vita allir sem vilja vita það

Hún segist ekki geta fullyrt að þetta sé gert á öllum svínabúum hér á landi en veit að þetta er gert víða. „Ég veit að þetta er gert. Það vita allir sem vita vilja. Ég veit ekki hvort þetta er gert á hverju einasta svínabúi en þetta tíðkast á stóru búunum," segir Sigurborg.

Henni finnst það óviðunandi að í stað þess að búa betur að grísunum og finna lausnir til bættrar vellíðan dýranna sé farin sú leið að klippa af þeim hala og stytta tennur til að minnka líkur á því að þeir nagi halann hver á öðrum með tilheyrandi sýkingarhættu. „Það er óásættanlegt að mannskepnan sé að leysa vandamál sem hlýst af aðferðum hennar við að halda dýr með því búa til annað og veldur dýrum sársauka," segir hún.

Ný lög um dýravernd eru enn í vinnslu en drögin verða kynnt ráðuneytinu um miðjan næsta mánuð. Meðal annarra breytinga þar er að lögin munu kallast lög um dýravelferð í stað laga um dýravernd. Samkvæmt gildandi lögum er bannað að fara illa með dýr en í nýjum lögum verður lögð áhersla á að það sé skylt að fara vel með dýr.





Aths. blaðamanns:

Samkvæmt íslenskri orðabók skal nota orðið „rófa“ þegar talað er um grísi. Þar sem heimildamenn blaðamanns og viðmælendur, hvort sem er svínabóndar eða dýralæknar, nota allir orðið „hali“ var ákveðið að nota það í þessum fréttum.


Tengdar fréttir

Grísir geltir á sársaukafullan hátt án deyfingar

Á Íslandi eru karlkyns grísir geltir án deyfingar eða verkjastillingar. Starfsmaður svínabúsins sker þá í punginn og slítur eistun út. Aðgerðin er gríðarlega sársaukafull fyrir grísina. Kjöt geltra grísa er án sérstaks bragð og lyktar sem getur komið af ógeltum grísum og er það megin ástæðan fyrir geldingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×