Lífið

Þorsteinn Joð með soninn Tómas Joð í vinnu

Góðir saman, Tómas J. og Þorsteinn J.
Góðir saman, Tómas J. og Þorsteinn J.
„Jú, hann hefur alveg vit á þessu. Hefur náttúrulega reynslu af því að sjá um svona stórmót og svo er hann duglegur að mæta á leiki. Við hittumst líka oft í mat á meðan á ensku úrvalsdeildinni stendur og ræðum um hvað er að gerast," segir Tómas J. Þorsteinsson, sonur Þorsteins Joðs Vilhjálmssonar.

Hann verður föður sínum innan handar í HM-þáttum RÚV en keppnin hefst í dag. Tómas segir einfaldast að útskýra starf sitt þannig að hann sé aðstoðarmaður Þorsteins. „Ég hringi í fólk til að koma í þáttinn og fylgist síðan með leikjum og kem með einhverja punkta úr þeim."

Tómas er leikmaður með meistaraflokki Fylkis í Pepsi-deildinni.

Hann hefur verið fastamaður það sem af er tímabils og meðal annars leikið í stöðu vinstri bakvarðar en það er einmitt sama staða og Þorsteinn lék í á árum áður með Fram. „Ég er meira fyrir að hlaupa upp og niður kantinn og gefa fyrir, mér skilst að pabba hafi meira verið plantað þarna til að stoppa leikmenn og tuddast aðeins."

Og það vekur óneitanlega athygli að Tómas skuli leika með Fylki þar sem pabbi hans er gallharður Framari.

Tómas segir þetta eiga sér landfræðilega skýringu, hann hafi einfaldlega átt heima í hundrað metra fjarlægð frá Fylkisvellinum í Árbænum.

Tómas kláraði annað árið í umhverfis- og byggingarverkfræði við Háskóla Íslands í sumar en segir að hann sé um þessar mundir í draumastarfinu. „Þetta getur ekki verið betra fyrir knattspyrnumann, að horfa á fótbolta og fjalla um fótbolta, ég gæti hreinlega ekki hugsað mér betri vinnu."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.