Viðskipti erlent

Portúgalir hagnast á hamstri fyrrum einræðisherra síns

Portúgalir geta nú þakkað Antonia Salazar fyrrum einræðisherra sínum að slæm efnahagsstaða þeirra sé ekki mun verri en hún er.

Portúgalir eiga einn stærsta gullforða meðal þjóða Evrópu sem skýrist af því að Salazar hamstraði gull meðan hann sat á valdastóli sem einræðisherra landsins. Valdatíð hans náði frá árinu 1932 og fram til ársins 1968.

Meðan á seinni heimsstryjöldinni stóð var Portúgal helsti útflytjandi á wolframi í heiminum en wolfram er mikilvægur málmur í vopnaframleiðslu. Salazar krafðist ætíð að borgað væri fyrir wolframið í gulli.

Gullkaup Salazar héldu áfram eftir stríðið og þegar hann fór frá völdum nam gullforði Portúgals nær 800 tonnum. Gullforði landsins stendur í tæpum 400 tonnum í dag en verðmæti hans eru tæpir 15 milljarðar evra eða rúmlega 2.300 milljarðar kr. Þetta nemur 6,8% af landsframleiðslu landsins. Til samanburðar nemur gullforði Þýskalands 4,2% af landsframleiðslu landsins.

Portúgal hefur því hagnast vel á þeirri 20% verðhækkun sem orðið hefur á gulli undanfarna mánuði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×