Innlent

Iðnaðarmálagjald stenst ekki ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu

Samtök Iðnaðarins eru ósátt við úrskurð Mannréttiindadómstóls Evrópu.
Samtök Iðnaðarins eru ósátt við úrskurð Mannréttiindadómstóls Evrópu.

Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) kvað upp dóm um lögmæti iðnaðarmálagjalds í morgun. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að lögin um iðnaðarmálagjaldið stæðust ekki ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu.

Niðurstaðan eru Samtökum iðnaðarins vonbrigði samkvæmt tilkynningu sem samtökin sendu frá sér.

Þar segir að tvívegis hefur Hæstiréttur Íslands fjallað um málið og komist að annarri niðurstöðu. Samtök Iðnaðarins segja að dómurinn komi hins vegar ekki á óvart og vilja samtökin meina að flest mál sem hann tekur á annað borð fyrir af þessu tagi falla sækjanda í hag. Það sýnir tölfræðin.

Samtök iðnaðarins áttu ekki aðild að þessum dómsmálum enda þótt þau vörðuðu gjald sem iðnaðurinn í landinu greiðir og rennur til þeirra. Það var ríkið sem var varnaraðili í málinu enda fjallað um lög frá Alþingi sem hafa verið í gildi um áratugaskeið.

Niðurstaðan hefur mikil áhrif á rekstur Samtaka iðnaðarins og þar með hagsmunagæslu iðnaðarins í landinu. Niðurstaðan mun einnig hafa áhrif á fjármögnun annarra hagsmunasamtaka og verkefna í atvinnulífinu.

Samtök iðnaðarins munu þegar í stað óska eftir viðræðum við iðnaðarráðherra um framhald málsins og hvernig íslensk stjórnvöld hyggjast bregðast við.

Samtök iðnaðarins munu leggja á það höfuðáherslu að þjónusta við félagsmenn og barátta fyrir hagsmunum iðnaðarins verði öflug í framtíðinni þrátt fyrir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×