Innlent

Rannsaka þurfi allt söluferlið á HS orku

Þingflokkur vg Flokkurinn ítrekar þá stefnu sína að allar auðlindir þjóðarinnar eigi að vera sameign hennar.Fréttablaðið/pjetur
Þingflokkur vg Flokkurinn ítrekar þá stefnu sína að allar auðlindir þjóðarinnar eigi að vera sameign hennar.Fréttablaðið/pjetur

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs ítrekar, í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í gærkvöldi, þá grundvallarstefnu sína að allar auðlindir þjóðarinnar eigi að vera sameign hennar.

Þingflokkurinn beinir því til ríkisstjórnarinnar að skoða alla möguleika til að vinda ofan af einkavæðingu HS Orku og tryggja orkuauðlindirnar og orkufyrirtækin varanlega í almannaeign. Þá telur þingflokkurinn fulla þörf á að rannsaka allt ferlið í kringum söluna á HS orku.

Í yfirlýsingunni er sagt að aðdraganda kaupa Magma Energy á hlut Geysis Green Energy megi rekja til ákvörðunar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar árið 2007 um sölu á 15,2 prósenta hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja. Opinberum aðilum hafi verið meinað að bjóða í þann hlut.

Þingflokkur Vinstri grænna telur óviðunandi að HS orka, þriðja stærsta orkufyrir-tæki landsins, fari undir yfirráð erlends einkafyrirtækis, eins og segir í yfirlýsingunni. Þá er minnt á að allir flokkar á Alþingi, aðrir en Sjálfstæðisflokkurinn, studdu stjórnarskrárbreytingu fyrir síðustu Alþingiskosningar þess efnis að allar auðlindir yrðu þjóðareign. Þingflokkurinn væntir því víðtæks stuðnings við þessa stefnu og nauðsynlegar aðgerðir til þess að framfylgja henni og er sannfærður um víðtækan stuðning þjóðarinnar í því efni. - kh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×