Íslenski boltinn

Kveikir fyrsti sigurinn í KR?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Úr leiknum í gær.
Úr leiknum í gær. Fréttablaðið/Vilhelm
KR-ingar unnu fyrsta sigurinn í Pepsi-deild karla með dramatískum hætti á Laugardalsvellinum í gær þegar liðið skoraði þrjú mörk á síðustu fjórtán mínútum leiksins og tryggði sér 3-2 sigur á Fram.

"2-0 undir og 16 mínútur eftir. Miðað við hvernig tímabilið var búið að vera hjá okkur þá var ekki líklegt að við myndum hafa heppnina með okkur á útivelli á móti Fram sem eru mjög góðir í vörn og að pakka. Þetta leit ekki vel út en við sýndum þvílíkan karakter og þetta er frábær sigur," sagði hetja KR-inga, Björgólfur Takefusa, sem skoraði tvö mörk með sex mínútna millibili á lokakafalnum og tryggði KR 3-2 sigur á Fram.

"Það kom viss kraftur með fyrsta markinu og það gaf okkur bensín. Eftir annað markið þá kom ekkert annað til greina en að klára þetta," sagði Björgólfur en þremur mínútum áður en hann jafnaði leikinn hafði Grétar Sigurðarson minnkað muninn með skalla eftir hornspyrnu.

"Við áttum þetta inni því mér finnst við búnir að vera ótrúlega óheppnir í byrjun mótsins," sagði Björgólfur og nú segir hann KR-liðið sé mætt í mótið.

"Þetta eru virkulega skemmtilegir sigrar og þetta getur kveikt í okkur. Við þurfum bara að nýta þennan sigur og í rauninni var mótið að byrja hjá okkur í dag. Nú verðum við að passa það að fylgja þessum leik eftir," sagði Björgólfur.

Framarar voru örugglega farnir að sjá fyrir sér stöðutöfluna þegar leið og lokum leik liðsins í Laugardalnum í gær. Fram var 2-0 yfir og með ágæt tök á leiknum þegar aðeins sextán mínútur voru eftir. Liðið var því á leiðinni á toppinn í fyrsta sinn í 18 ár en á tíu mínútna kafla breyttist allt.

Logi Ólafsson, þjálfari KR, tók þá mikla áhættu. Ekki með því að senda Gunnar Kristjánsson inn á völlinn heldur með því að fækka um einn í vörninni og spila bara með þrjá varnarmenn. KR-liðið var búið að jafna leikinn eftir fimm mínútur og skora síðan sigurmarkið sex mínútum síðar.

"Það er fátt sem maður getur sagt eftir svona endakafla. Maður er bara drullusvekktur og pirraður," sagði Framarinn Jón Guðni Fjóluson sem átti góðan leik á miðjunni og kom Fram í 2-0 á 56. mínútu.

"Við höfum verið að gera þetta sjálfir en erum ekki vanir að fá þetta á okkur. Ég veit ekki hvað gerist því mér fannst við vera komnir með tökin á leiknum eftir að við komust í 2-0," segir Jón Guðni sem setur sökina á Framliðið.

"Þetta var okkar klúður og við getum sjálfum okkur um kennt. Við hefðum samt getað komist á toppinn og það er leiðinlegt að nýta það ekki," sagði Jón Guðni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×