Erlent

Þegar Amir Ali reyndi að kveikja í krá

Óli Tynes skrifar

Amir Ali og félagi hans báru sig ekki sérlega faglega að þegar þeir ákváðu að brenna hverfiskrána í bænum Crawley í Sussex í Bretlandi. Planið var að Amir Ali myndi fleygja tveim múrsteinum í gegnum rúðu á kránni. Félaginn stóð svo tilbúinn með bensínsprengju sem átti að fylgja á eftir múrsteinunum.

Þetta fór dálítið úrskeiðis. Mikil ósköp, Amir Ali fleygði múrsteinunum og mölbraut rúðuna. Og mikil ósköp, vinurinn fleygði bensínsprengjunni. Hann var hinsvegar ekkert sérlega hittinn. Bensínsprengjan lenti til hliðar við rúðubrotið og datt niður við fæturna á Amir Ali. Augnabliki síðar var hann umlukinn eldkúlu.

Skelfingu lostnir lögðu þeir félagar á flótta. Félaginn hljóp burt og Amir Ali hljóp beint á næsta ljósastaur. Boiiiing, og hann steinlá í götunni. Hann staulaðist á næsta spítala til þess að láta gera að sárum sínum. Og var gripinn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×