Lífið

Hinsegin kaupfélag opnað

„Þetta er hluti af fjáröflun okkar þar sem hátíðin kostar sitt. Þetta er einnig kjörinn vettvangur fyrir fólk til að verða sér úti um það sem þarf fyrir hátíðina," segir Þorvaldur Kristinsson, forseti Hinsegin daga.

Í dag verður opnað Kaupfélag Hinsegin daga sem er verslun með varning, aðgöngumiða og VIP kort ásamt fleiri nauðsynjum fyrir hátíðina. Kaupfélagið er í versluninni IÐU við Lækjargötu og verður opið alla daga fram að hátíð. Þetta er fastur liður í fjáröflun Hinsegin daga og er verslunin jafnframt það fyrsta sem fólk verður vart við þegar hátíð fer að nálgast.

„Þarna getur fólk fundið regnbogabönd, regnbogafána, regnbogafjaðrir og í raun nánast allt regnboga- sem það vill. Á hverju ári er einnig gerður bolur hátíðarinnar og í ár er það Davíð Terrazaz sem hannar hann. Bolurinn verður til sölu í Kaupfélaginu en fylgir þó frítt með ef keypt er VIP kort," segir Þorvaldur.

Að hátíðinni kemur fjöldinn allur af sjálfboðaliðum og má nefna að um tíu sjálfboðaliðar sjá um Kaupfélag Hinsegin daga en fá aðstoð 50 sjálfboðaliða sem selja varning á hátíðardaginn í göngunni sjálfri.

„Undirbúningurinn gengur mjög vel og allt er samkvæmt áætlun, enda erum við með fólk í margra ára æfingu þar sem þetta er í 12. skipti sem hátíðin er haldin. Það er öllum velkomið að vera með í göngunni. Það eina sem fólk þarf að gera er að tilkynna sig til göngustjóra með upplýsingar um atriðið sitt," segir Þorvaldur, spenntur fyrir hátíðinni í ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.