Lífið

Eftirsótt að leika kærustu Buddy Holly

Þessar mættu galvaskar í prufur í Austurbæ á sunnudag.
Þessar mættu galvaskar í prufur í Austurbæ á sunnudag.

„Þetta er stórt tækifæri fyrir hvern þann sem hefur áhuga á söng og dansi," segir Ísleifur B. Þórhallsson hjá Bravó. Eins og greint var frá í Fréttablaðinu á dögunum þá hyggjast Bravó og 3 sagas setja upp söngleikinn Buddy Holly í október.

Ingó veðurguð fer með hlutverk Holly, en prufur fyrir hin hlutverkin fóru fram í Austurbæ á sunnudag og halda áfram næstu daga.

„Það voru um 80 manns sem komu í prufurnar, þar af um 40-50 stúlkur sem áhuga höfðu á hlutverki Maríu Elenu, kærustu Buddy Holly," segir Ísleifur.

„Söngleikurinn er stór og flottur og það er ekki á hverjum degi sem fólki býðst tækifæri til að taka þátt í verki sem þessu. En það gæti svo sem vel verið að Ingó hafi spilað inn í þetta. Stúlkunum þætti nú ekki leiðinlegt að fá að leika á móti honum."

Ingó í hlutverki Buddy.

Ísleifur segir bæði áhugamenn og atvinnuleikara koma til greina í verkið og segir fjölbreytta blöndu af fólki þegar hafa sóst eftir hlutverkum.

„Þetta er skemmtileg blanda af atvinnuleikurum, vönu fólki, þekktu fólki og óþekktu fólki og nýstirnum," segir hann. „Við ætlum að kynna til leiks nýtt íslenskt hæfileikafólk sem hefur ekki sést mikið áður." - ls








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.