Erlent

Hollywood skiltið hverfur í dag

Óli Tynes skrifar

Hollywood skiltið fræga mun hverfa sjónum manna í dag. Það verður þó aðeins í dag. Það eru samtök umhverfisverndarsinna sem standa fyrir þessu.

Þau hafa tryggt sér kauprétt á hæðinni þar sem skiltið stendur til þess að koma í veg fyrir að lúxusvillur verði byggðar þar efst uppi.

Ætlunin er að setja yfir skiltið ábreiðu þar sem stendur; Bjargið tindinum. Það er liður í fjársöfnun samtakanna fyrir kaupverðinu. Allmargar stórstjörnur standa á bakvið þessa herferð.

Hollywood skiltið var reist árið 1923 til þess að auglýsa lóðir á þessum slóðum. Árið 1940 keypti auðkýfingurinn Howard Hughes hæðina og ætlaði að reisa þar hús fyrir leikkonuna Ginger Rogers, sem var heitkona hans.

Þegar sambandi þeirra lauk hélt Hughes áfram í þessa fasteign sína og hún var svo seld úr dánarbúi hans.

Fjárfestar náðu svo hæðinni á sitt vald og ætlunin var að reisa þar mikið villuhverfi. Eitt af fáu góðu sem kom út úr fjármálakreppunni var að sú áætlun rann út í sandinn.

Umhverfisverndarsamtökin Trust For Public Lands er nú semsagt að safna fé til þess að kaupa hæðina og halda henni í óbyggð.

Og með Hollywood skiltið á sínum stað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×