Innlent

Vilja nýta virðisaukaskattkerfið

Fyllt á metanbíl Þó nokkur fyrirtæki hafa aukið hlut metanbíla í flota sínum, þar á meðal eru Pósturinn og OR.
Fyllt á metanbíl Þó nokkur fyrirtæki hafa aukið hlut metanbíla í flota sínum, þar á meðal eru Pósturinn og OR.

Verkefnisstjórn Grænu orkunnar skilar tillögum sínum um aðgerðir hins opinbera til að auka hlut innlendra orkugjafa í samgöngum í kringum mánaðamótin næstu, segir Hólmfríður Sveinsdóttir, formaður verkefnisstjórnarinnar.

Hún segir helst horft til þess hvernig hægt sé að nota virðisaukaskattkerfið sem hvata til að ýta undir að fólk og fyrirtæki breyti bifreiðum sínum þannig að þær noti innlent eldsneyti.

„Og þá til endurgreiðslu vegna íhluta og annars sem þarf til að breyta bílum.“

Hólmfríður segir meðal annars horft til fordæmisins í verkefninu Allir vinna þar sem sækja má um endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna viðhalds á heimilum eða í sumarhúsum.

„Ég á von á því að við skilum af okkur tillögum í kringum mánaðamótin næstu og síðan ráða stjórnmálamenn för,“ segir Hólmfríður, en bendir um leið á að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sé afdráttarlaust kveðið á um að stefnt skuli að því að auka hlut visthæfra innlendra orkugjafa í samgöngum á kostnað innflutts kolefnaeldsneytis.

„Ég er því tiltölulega bjartsýn á að þetta geti gerst,“ segir hún og kveður unnið að gerð lagafrumvarps um málið í fjármálaráðuneytinu sem leggja eigi fyrir haustþingið.- óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×